Hamingjubók hjálpar þér við að finna það út hvað gefur þér gleði, vellíðan og sanna hamingju í lífinu. Bókin gerir markmiðasetningu einfalda og skemmtilega og nýtist öllum sem vilja hugsa vel um líkama og sál. Með því að skrifa í bókina getur þú fundið út hvar styrkleikar þínir liggja, hverjir draumar þínir eru og hvert þú stefnir í lífinu.

Hamingjubók er dagbók þar sem þú ert höfundurinn. Þú skráir dagsetningu þegar þú skrifar svo það er engin regla eða tímapressa hvenær eða hversu oft þú skrifar í bókina.
Hamingjubók inniheldur einnig skemmtilegan fróðleik um heilsu, hamingju og sjálfsumhyggju.
Hamingja eflir sjálfstraust og með því að beina athyglinni að styrkleikum okkar og því sem gefur okkur sanna hamingju leyfum við hæfileikum okkar að blómstra og aukum líkurnar á því að við náum settum markmiðum í lífinu.

Þú getur skrifað niður daglega hvernig þér líður, hvaða tilfinningar þú upplifir og hver verkefni dagsins eru.
Einnig getur þú skráð næringu, hreyfingu, sjálfsumhyggju og svefn og þannig getur þú áttað þig betur á því hvað er í góðu jafnvægi og hvort það séu einhverjar breytingar sem þú vilt gera á þínum lífsstíl.

Í upphafi hverrar viku getur þú skráð markmið þín, þínar hugleiðingar og að hvaða skapandi verkefnum þú ert að vinna. Í lok hverrar viku getur þú síðan farið yfir það hvaða markmiðum þú náðir og hvort þú viljir setja þér markmið fyrir nýja viku.

 

Mundu að hamingjan er þín og framtíðin er allt sem þú munt skapa!